Gersigur íhaldsmanna í Bretlandi

Ég var ekki lítið svekktur yfir því að missa af fundi með John Major, fyrrum forsætisráðherra Breta, um daginn. Þannig er að á hverju sunnudagskvöldi býður skólameistarinn í University College okkur nemendum heim til sín ásamt góðum utanaðkomandi gesti í spjall. Síðasta sunnudag var það John Major. Þar sem stofa skólameistara rúmar ekki ótakmarkaðan fjölda verður í einstaka tilfellum að draga um hverjir komast að. Ég var sem sagt óheppinn í þetta skiptið.

Hins vegar er ég að fara á fund með David Cameron, núverandi leiðtoga íhaldsmanna eftir nokkra daga. Það verður sérlega áhugavert í ljósi gerbreyttrar stöðu í breskum stjórnmálum.

Þegar við Hrefna fluttum til Bretlands gekk Gordon Brown allt í haginn og ekkert benti til þess að eyðimerkurgöngu íhaldsmanna lyki á næstunni. Gengi hans síðan þá verður ekki lýst með öðrum orðum en algeru pólitísku hruni. Í gærkvöldi kom svo í ljós að Verkamannaflokkurinn beið mesta afhroð í sveitarstjórnarkosningum í 40 ár. Flokkurinn fékk meira að segja færri atkvæði en Frjálslyndi flokkurinn.

Og rétt í þessu kom svo náðarhöggið. Ken Livingstone, eða Rauði-Ken, eins og hann er kallaður hér, beið ósigur fyrir Boris Johnson í bardaganum um London.

Ég hef ekki náð að kynna mér pólitík Borisar vel en ljóst er að þar fer mikill karakter. Hann gekk í Oxford og vakti þar mikla athygli í félagslífinu og var m.a. formaður málfundafélagsins (Oxford Union). Síðar stýrði hann gamanþáttum á BBC.

Ég held að mat stjórnmálafræðingsins á heimilinu sé hárrétt. Bretar vilja bragðmikla karaktera í pólitík. Þeir fyrirgefa fólki ýmislegt ef það býður upp á hnittin tilsvör, hugsjónir og pólitíska áræðni. Þeir vilja frekar fólk eins og Tony Blair, Margaret Thatcher og Winston Churchill heldur en Gordon Brown og John Major.

Ég held að Boris Johnson eigi merkilegan feril í vændum.

boris


Íhlutun þriðja aðila

Upphaflega stefndum við á að vera hér úti í tvö ár. Eftir Oxford var stefnan sú að fara til London þar sem Hrefna ætlaði í framhaldsnám í stjórnmálafræði. Um hríð gekk þetta svosem samkvæmt áætluninni og Hrefna fékk inni í báðum skólunum sem hún sótti um í, þ.e. LSE og King's College.

Þessum áætlunum hefur þó að minnsta kosti tímabundið verið skotið á frest vegna íhlutunar þriðja aðila, eins og lögfræðingar myndu orða það. Hér má sjá mynd af viðkomandi:

 100_1747

Við erum að sjálfsögðu í skýjunum yfir þessari íhlutun.

 HÞH


Kanalinn í Summertown hverfi

100_1737100_1735100_1734100_1733

Gleðilegt sumar!

Í gær var 18 stiga hiti í Oxford og samkvæmt spánni á góða veðrið að haldast út vikuna. Ég er alveg sérstaklega ánægð með það þar sem ég á afmæli á föstudaginn og Pabbi er að koma í heimsókn um helgina. Ég sé því fram að skoðunarferðir í sól og blíðu og mikið ísát um helgina.

Það er rúmur mánuður síðan ég hætti hjá Oddbins og hef ég á þeim tíma farið í ítarlegar skoðunarferðir um Oxford. Það er alveg ótrúlega merkilegt að þrátt fyrir að Oxford sé ekki stór borg er maður alltaf að finna einhverjar nýjar búðir eða græn svæði og skemmtilegar gönguleiðir. Ég er einmitt nýbúin að finna æðislega gönguleið meðfram kanalnum frá hverfinu okkar niðrí miðbæ, ég ætti nú eiginlega að fara með myndavél næst þegar ég fer út að labba og smella af nokkrum myndum til að setja á síðuna.

Við Hafsteinn vorum einmitt líka að finna uppáhaldsbúðina okkar um daginn. Í Jerico hverfinu í Oxford er að finna litla og æðislega bókabúð. Þessi bókabúð er alveg ótrúleg, hún er full af nýjum og merkilegum bókum um allt frá heimspeki til matargerðar. Allar bækur í búðinni kosta 2 pund!! Og við erum búin að kaupa þvílíkt flottar bækur.

Bókakosturinn er búinn að aukast töluvert síðan við fluttum út enda ótrúlegt úrval af bókum hérna í Bretlandi. Reyndar held ég að Hafsteinn eigi nú fleiri bækur um réttarheimspeki en háskólabókasöfnin á Íslandi ( sem er nú kannski ekkert sérlega erfitt...). Það verður fróðlegt að sjá hvernig við eigum eftir að koma þessu fyrir í Ljósheimum í ljósi þess að við vorum í vandræðum með pláss fyrir bækur áður en við fluttum út. O well..

Hrefna


Á æskuslóðum Churchill

Hef legið yfir ritum Aristótelesar undanfarna daga. Magnað hvað öll þessi skrif síðustu tvö þúsund ár hafa í raun bætt litlu við, þótt auðvitað hafi margir átt athyglisverða spretti.

Tók mér samt frí í gær. Var dobblaður af eiginkonunni til þess að taka strætó út í sveit. Eftir tuttugu mínútna akstur komum við að Blenheim höllinni sem stendur í útjarðri bæjar að nafni Woodstock. Nú á dögum er höllin kannski einna þekktust fyrir að vera æskuheimili Winstons Churchill. Því miður mátti ekki taka ljósmyndir inni en ég læt nokkrar fylgja þar sem við sleiktum sólina úti í hallargarðinum.

Eins og sjá má höfðu hinir akandi gestir hallarinnar mjög einfaldann smekk á bílum...

 100_1710  100_1716 

 100_1714  100_1726

100_1725

Fyrir framan höllina var listigarður en á túninu bak við húsið (þar sem ég stend á einni myndanna) bitu kindur gras. Við röltum svo frá höllinni yfir í miðbæ Woodstock með romm- og rúsínuís í höndunum. Þar er mjög sérstakt og skemmtilegt andrúmsloft. Þröngar götur með gömlum byggingum og litlum búðum. Svona á að eyða frídögum.

Hafsteinn.


Nei, þetta eru ekki ofsjónir. Það er komin ný færsla.

Jæja, nú eru vonandi flestir búnir að fá tækifæri til að melta síðustu færslu og kominn tími til að bæta við einhverjum fréttum héðan frá Oxford.

Hér í borg er mikið stuð þrátt fyrir fámenni en nú eru margir að hvíla lúin bein fyrir síðustu lestrartörnina. Ég húki hins vegar enn á bókasafninu enda á ég að skila þremur ritgerðum í réttarheimspeki 18. apríl. Á móti kemur að ég þarf þá að hafa áhyggjur af einu prófi færra en flestir aðrir í júnílok.

Hrefna má líka vera montin af sjálfri sér því hún fékk inni í hinum virta háskóla LSE, eða London School of Economics and Political Science, eins og hann heitir fullu nafni. Námið sem hún sótti um heitir Theory and history of International Relations.

Undanfarna viku hefur verið sólbaðsveður og allt í blóma. Svo gerði vetur konungur sér lítið fyrir og lét snjóa á okkur í gær og fyrradag. Við ætluðum ekki að trúa eigin augum þegar við litum út um morguninn og fundum fyrir jólafiðringi. Þessar myndir voru teknar fyrir sólarupprás af skólasystur minni, Helen Dale.

 veturvetur2vetur4

Af öðru er það að nefna að við höfum notið gestrisni íslenskra vina okkar að undanförnu. Fórum í afmæli til Jóhönnu sem stúderar norræn fræði til doktorsgráðu og í matarboð til Margrétar og Varða. Annars vann Margrét það afrek á dögunum að vera í sigurliði Oxford í róðri í keppninni frægu gegn Cambridge. Oxford sigraði í bæði kvenna- og karlaflokki að þessu sinni. Maður hefði ekki trúað því hversu strangt er æft allt árið ef maður hefði ekki fylgst með þessu í gegnum hana Margréti.

Af gestakomum er það að frétta að við búumst við góðu fólki hér á næstunni í stutt stopp. Þeir sem ég held að séu staðfestir eru Haukur og Guðríður, Maggý, Heiðar og Fríða, og Birta. Ástmar mun hins vegar ríða á vaðið og verður hér á afmælinu hennar Hrefnu eftir tæpar þrjár vikur.

 Segjum þetta í bili.

Hafsteinn.

 


Þegar orðið "ekki" gleymist

Í Bretlandi er nú mikið rætt um þau orð Dr Rowan Williams erkibiskupsins af Canterbury að til greina komi að taka upp svokölluð sharia lög í Bretlandi, þannig að múslimar geti dæmt eftir eigin lögum í deilum sín á milli í stað þess að hlýta alfarið hinum almennu bresku lögum. Fréttavefur Morgunblaðsins segir frá þessum umræðum og tilraunum biskupsins til þess að skýra mál sitt. Í frétt, sem mér sýnist fengin af vef BBC segir svo eftirfarandi í Moggafréttinni:

"Hann [biskupinn] hefur staðið harður á því að hann meini að taka eigi upp tvö mismunandi sett af lögum í landinu en heyrst hafa óánægjuraddir sem kalla eftir afsögn hans."

Í frétt BBC segir hins vegar:

"He has insisted he was not advocating a parallel set of laws but has faced calls for his resignation." (áherslubreyting mín).

Það er svona með orðið "ekki". Það má helst ekki gleymast í þýðingum.

Hafsteinn.


Björn, Finnis og Scalia

Var að horfa á Silfur Egils á netinu þar sem Bjorn Bjarnason var gestur Egils Helgasonar. Mér fannst Björn koma mjög vel fyrir. Kannski ætti hann að láta það eftir Agli að vera oftar gestur í þættinum.

Björn minntist meðal annars á frumvarp Ingibjargar Sólrúnar um varnarmálaskrifstofu og lýsti yfir stuðningi sínum við það, sem kemur auðvitað ekki á óvart. Ég man mjög vel eftir því þegar fólk var að hneykslast á skoðunum Björns á íslenskum varnarmálum. Hann leyfði sér að benda á, nokkru fyrir brottför bandaríska hersins, að sá tími hlyti að koma að Íslendingar þyrftu að axla ábyrgð í þessum málaflokki. Viðbrögðin voru þau að útmála Björn sem einhvers konar kaldastríðskarl með drauma um íslenskan her.

Seinna skrifaði ég blaðagrein um furðulega afstöðu Ingibjargar Sólrúnar sem virtist ekki gera sér grein fyrir því hvaða áhrif brottför bandaríska herliðsins, og þess öryggisbúnaðar sem fylgdi því, hefði á stöðu okkar Íslendinga. Nú hefur hún hins vegar greinilega áttað sig á því. Ég sé hins vegar hvergi fréttir um að hún, eða aðrir, hafi viðurkennt framsýni Björns í þessum málum. Reyndar teldi ég réttast að hann yrði hreinlega beðinn afsökunar.

Annars hef ég nóg fyrir stafni. Hef undanfarið verið í einkatímum hjá John Finnis réttarheimspekingi. Vera John Finnis í Oxford spilaði stóran þátt í þeirri ákvörðun minni að sækja um í skólanum, enda heillaðist ég mikið af skrifum hans þegar ég var við nám við Háskóla Íslands. Aðeins fjórir nemendur komast að á ári hjá Finnis þannig að ég nýt mikilla forréttinda. Ég upplifi mig svolítið eins og Umu Thurman í Kill Bill þegar hún fór í læri hjá Pai Mai. Finnis og Mai eiga það sameiginlegt að vera yfirburðarmenn í sínu fagi og gera miklar kröfur til nemenda sinna. Báðir eru þó ljúflingar inn við beinið.

Á fimmtudaginn kemur svo fjölskyldan hingað út til okkar til að fagna afmæli pabba. Sama dag verður A. Scalia, hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, gestur málfundafélagsins. Ætli maður líti nú ekki við á kappann.

Annars sé ég að Alan Dershowiz er á leið til Íslands til að halda tölu í Skálholtssdkóla. Ég hefði gjarnan viljað fá tækifæri til að hlusta á hann. Til þess er hins vegar lítil von, enda hefur hann lýst yfir algjöru frati á málfundafélagið hér í Oxford fyrir að vera of andsnúið sjónarmiðum Ísraels.

Later, Hafsteinn.

 


Daglegt líf í janúar

Núna sit ég við tölvuna og tek því rólega með kaffibolla og djass í eyrunum. Ég á ekki að mæta í vinnuna fyrren tvö og nenni ekki að gera neitt gáfulegt í dag. Síðustu dagar eru búnir að vera ótrúlega skemmtilegir og viðburðaríkir. Við Hafsteinn fórum út að borða á föstudagskvöldið með vinnunni minni á kínverskan veitingarstað hérna í Summertown hverfinu. Við fengum alveg geggjaðan mat og fín vín og smökkuðum meira að segja á froskalöppum (sem voru bara býsna góðar). Á laugardaginn fórum við til London um morguninn og hittum Eirík, Ingvar og Harald og skoðuðum okkur um í London. Eins og alltaf löbbuðum við um London í fleiri klukkutíma (sem mér finnst líka alltaf langskemmtilegast) ásamt því að kíkja á Serpentine galleríið í Hyde Park á sýningu Anthony McCall.  Ég náði að draga strákanna í Whole foods og gerði smá innkaup og síðan enduðum við á frábærum japönskum veitingastað.

Í gær kom Eirík síðan í heimsókn til Oxford og við sýndum honum helstu staðina þrátt fyrir ömurlegt veður. Í gær voru semsagt brjálaðar þrumur og eldingar ásamt mestu rigningu sem ég hef séð á ævinni. Það kom þó ekki að sök og Eirík fannst þetta bara skapa skemmtilega stemmingu. Ég verð að vera sammála honum.  Það er líka gaman að horfa á byggingarnar í Oxford í drungalegu veðri. Í gær leit Oxford út fyrir að vera leikmynd í Tim Burton mynd eða einhverri hryllingsmynd. Ég vona bara að veðrið verði skaplegt um næstu helgi en þá ætla Auður Gyða, Svenni, Helena og Hildur að kíkja á okkur á laugardaginn.

Hrefna


Myndir frá Bath

100_1559

100_1565

100_1573

100_1588


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband