22.5.2007 | 23:55
Fyrir ykkur örfáu sem vitið af þessari bloggsíðu
Við Hrefna höfum sem sagt ákveðið að stofna til bloggsíðu. Ættingjar okkar og vinir hafa um nokkurt skeið vitað að hugur okkar stæði til þess að flytja til útlanda og sækja framhaldsnám. Við ákváðum að láta drauminn rætast nú í haust. Við höfum fundið fyrir því að okkar nánustu eru ekki skeytingarlausir um okkar hag og vilja gjarnan vita hvert við erum að fara og hvað við erum að sýsla. Þessi bloggsíða er fyrst og fremst til þess að halda þessu góða fólki, sem er dreift um landið og heiminn, upplýstu.
Svo hér koma nýjustu fréttir. Við stefnum á að flytja til Oxford um miðjan ágúst. Námið sjálft hefst ekki fyrr en í lok september en ég hef skráð mig á námskeið í lögfræðilegri ensku og mun nota tímann til að slípa mig í mælskulistinni auk þess sem okkur gefst vonandi gott tækifæri til að kynnast borginni og koma okkur fyrir áður en alvaran hefst. Um er að ræða Magister Juris gráðu með áherslu á réttarheimspeki. Hrefna hættir í vinnunni hér heima 13. júlí og fer þá á fullt í að ganga frá okkar málum hérna heima. Sjálf sótti hún nýlega um í skólum í London og mun ferðast á milli borganna til þess að sækja tíma þar ef af verður.
Oxford háskóli samanstendur af 39 görðum, eða Colleges. Sá sem tók við mér heitir University College og er þeirra elstur. Meðfylgjandi mynd er af Univ, eins og hann er kallaður.
HÞH
Athugasemdir
Það er bara það. Ekki allir sem komast í skólann sem gat Clement Atlee af sér!
Til lukku!
Davíð Örn Jónsson, 23.5.2007 kl. 12:54
Þetta er bloggsíðan sem Ísland hefur beðið eftir.
Ég geri ráð fyrir því að þú munir verða flugmæltur á Oxford-ensku þegar þú snýrð heim, Haffi. Ég get ekki séð hvernig lögfræðingur sem flytur mál sín á Oxford-ensku getur mögulega komist hjá því að vinna hvert einasta mál.
Hjölli (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 09:29
Hljómar vel. Til lukku með þetta allt saman !
Hanna Kristín Skaftadóttir (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 16:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.