26.5.2007 | 16:40
"Skarphéðinn heiti eg og hefir þú séð mig jafnan á þingi..."
Þeirri eldgömlu pólitísku brellu, að þykjast ekki kannast við andstæðinga sína, var beitt gegn Skarphéðni Njálssyni á Alþingi fyrir þúsund árum. Þegar þessi frækni kappi mætti á svæðið í fullum skrúða umkringdur genginu sínu spurðu andstæðingarnir, m.a. Skafti Þóroddsson, hver hann væri eiginlega. Með þessu þóttust þeir væntanlega slá tvær flugur í einu höggi. Það var auðvitað mikil niðurlæging fyrir Skarphéðinn, þessa frægu hetju, þegar höfðingjar landsins þekktu hann ekki. Og ekki óttuðust menn hann nú mikið, eða lágu andvaka af áhyggjum af því að mæta honum, ef þeir könnuðust ekki við hann þegar hann mætti til þings.
Undanfarinn áratug var hins vegar þveröfugri aðferð beitt af íslenskum vinstrimönnum í glímunni við helsta andstæðing sinn, Davíð Oddsson. Ekki nóg með að þeir þekktu á honum deili, heldur létu þeir allt snúast um hann og hans persónu. Allar árásir og allar samsæriskenningar beindust gegn honum. Nánast ekkert mátti gerast í íslensku samfélagi án þess að vinstrimenn flæktu persónu Davíðs Oddssonar einhvern veginn í málið. Þessi strategía var hins vegar mjög misráðin, fyrir utan það hvað hún var ósanngjörn gagnvart Davíð, og fyrir því lágu tvær ástæður.
Í fyrsta lagi leiddi þessi aðferð vinstrimanna til þess að þeir stóðu bitlausir eftir þegar Davíð hætti í pólitík, enda snerist allur þeirra málflutningur um hann. Í öðru lagi gerðu þeir Davíð Oddssyni óafvitandi og óviljandi mjög hátt undir höfði með árásum sínum. Því ef málflutningur þeirra var á rökum reistur, og allt samfélagið snerist í kringum persónu Davíðs Oddssonar, hlaut hann að vera einhver merkasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar.
Munurinn á taktík vinstrimanna síðastliðinn áratug og þeirra er sátu á þingi fyrir þúsund árum síðan kristallast í þessu frábæra ádeilumyndbandi úr áramótaskaupi Hallgríms Helgasonar og Skara skrípó:
http://www.youtube.com/watch?v=Mywc_HvihXU
HÞH
Athugasemdir
Þetta var fjör í gær .. verst að manni líður alveg helmingi verr útaf öllum tóbaks-fnyknum sem festist á mann. Var líka að frétta af starfsfólkinu á Ölstofunni - það er búið að flytja þau öll uppá líknardeild.
Ómar Örn (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 03:48
Sæll Ómar.
Sé að athugasemd þín er rituð um miðja nótt. Það að þú skulir vera að hugsa um mig og gamalt rifrildi okkar klukkan hálf fjögur á laugardagskvöldi er auðvitað flattering á ákveðinn máta.
HÞH
Hafsteinn Þór (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.