Ofbeldismenning

Það ætti auðvitað ekki að þurfa að setja refsilög til að koma í veg fyrir að fólk ráðist á aðra. Auðvitað ætti siðferðiskenndin ein að duga en ekki óttinn við fangelsisvist.

En því miður búa sumir ekki yfir slíkri réttlætis- og siðferðiskennd og slíka einstaklinga verður að stöðva með einhverjum öðrum hætti. Undanfarna daga hefur ofbeldi í miðbæ Reykjavíkur enn á ný verið til umfjöllunar og velta menn fyrir sér úrræðum til að draga úr því.

Sjálfur er ég almennt fylgjandi fremur vægum refsingum. Fyrir því liggja margvíslegar ástæður sem erfitt er að gera fullnægjandi grein fyrir í bloggfærslu. Hvað sem því líður blasir hins vegar við að refsingar verða að vera nægilega þungar til að búa yfir fælingarmætti. Þær þurfa að valda því að ofbeldismaður, sem yfir höfuð leiðir hugann að afleiðingum gerða sinna, hugsi sig tvisvar um áður en hann brýtur bjórflösku á höfði næsta manns á barnum.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort refsivörslukerfið í heild sinni á Íslandi sé of veikt til þess að búa yfir slíkum fælingarmætti. Hugsa Íslendingar sig tvisvar um áður en þeir reisa hnefann á loft af ótta við viðbrögð refsivörslukerfisins? Ég er ekki viss um að svo sé í mörgum tilfellum.

Allir þekkja einhvern sem hefur verið laminn í miðbæ Reykjavíkur að ástæðulausu. Og mér finnst eins og mörgum finnist það ekkert tiltökumál. Það er eins og mörgum finnist slagsmál eðlilegur fylgifiskur skemmtana eins fáránlegt og það hljómar. Ég hef jafnvel heyrt sögur af fólki sem er ráðlagt, jafnvel af lögreglumönnum, að vera ekkert að kæra líkamsárás því það verði líklegast ekkert úr málinu. Það er eins og skemmtanamenning okkar samþykki það að mönnum sé "gefið á kjaftinn" o.s.frv. En það er auðvitað engin skemmtanamenning, heldur ofbeldismenning.

Það getur verið ótrúlegt áfall fyrir einstakling að verða fyrir líkamsárás, jafnvel þótt afleiðingarnar séu e.t.v. "bara" sprungin vör eða glóðarauga. Svo ekki sé nú talað um hættuna á að slík árás leiði til varanlegra meiðsla, jafnvel til dauða.

Ég held að nauðsynlegur þáttur í því að eyða þessari ofbeldismenningu sé að herða refsingar og fylgja svona málum fastar eftir á öllum stigum réttarkerfisins.

HÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt stærsta verkefni löggæslu- og dómstólakerfisins er án efa að herða refsingar við ofbeldisbrotum. Það er orðin mjög hættuleg þróun þegar það þykir ekki einu sinni orðið tiltökumál að "buffa" löggu.

Kanzlarinn (IP-tala skráð) 30.5.2007 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband