1.6.2007 | 13:39
Útgáfu Múrsins hætt
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Stefán Pálsson í tilefni af því að útgáfu vefrits Múrsins hefur verið hætt. Stefán telur að gullöld hinna pólitísku vefrita sé liðin undir lok og þau hafi nú minna vægi en áður.
Sjálfur tók ég þátt, ásamt nokkrum öðrum, í stofnun frelsi.is á sínum tíma og man vel eftir því þegar róttæk grein á síðunni gat valdið miklu fjaðrafoki og leitt til heitra skoðanaskipta á síðum annarra vefrita og dagblaða. Sennilega er það rétt hjá Stefáni að tímarnir hafi breyst svolítið hvað þetta varðar. Það er þó ekki þar með sagt að minna sé um pólitísk skrif á netinu, öðru nær. Framboðið af slíkum skrifum hefur auðvitað margfaldast með tilkomu allra bloggsíðanna.
Mér varð hugsað til fyrstu daga frelsisins þegar ég las viðtalið við Stefán. Eitt af því skemmtilegasta við síðuna á fyrstu dögum hennar voru án efa hinar pólitísku teiknimyndasögur sem þar birtust um Einar einstakling. Myndasögurnar voru eftir Ívar Pál Jónsson, rithöfund og tónlistarmann. Ég legg til að núverandi ritstjóri frelsi.is leiti á ný til Ívars og bjóði honum fúlgur fjár fyrir að vekja Einar einstakling til lífs á ný. Þá myndi ný gullöld hefjast.
HÞH
p.s. Mér áskotnaðist rammi úr myndaseríu um Einar einstakling frá höfundi og ákvað að skeyta honum við færsluna.
Athugasemdir
Já, ég væri til í tuskið, væri mér boðinn þokkalegur eyrir. Gleymdi annars að spyrja þig að netfangi áðan.
Ívar Páll Jónsson, 1.6.2007 kl. 15:40
Netfang mitt er hthh@hi.is
Hrefna og Hafsteinn, 1.6.2007 kl. 15:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.