2.6.2007 | 00:55
Beit fleinn floginn. / Þá var friðr loginn.
Í kvöld bauð Hrefna mér á sýningu Benedikts Erlingssonar, Mr. Skallagrímsson. Við erum bæði miklir aðdáendur Benedikts og stilltum því hvorki kröfum okkar né væntingum í hóf.
Sýningin er frábær og hittir í mark á svo margan hátt. Hún er í senn skemmtileg og átakanleg. Áhorfandinn sveiflast á milli þess að dáðst að og fyrirlíta Egil Skallagrímsson og um leið menningu forfeðra okkar. Fyllast stolti og aðdáun á drengskap, ævintýraþrá, hetjulund og skáldskap. Viðbjóði á brennum, barnamorðum og ránum sömu manna.
Benedikt (og aðrir aðstandendur sýningarinnar) eru greinilega viðbúnir áhorfendum úr öllum áttum. Maður fann að þeir áhorfendur sem sökkt hafa sér í Íslendingasögurnar skemmtu sér konunglega en líka hinir sem lítið þekkja til sagnanna og hafa hingað til jafnvel ekki haft mikinn áhuga á þeim. Og allir munu þeir glugga í Egils sögu um helgina. Eftir að hafa séð túlkun Benedikts á Ormstungu og Egils sögu veltir maður því fyrir sér hvort hann verði ekki hreinlega að ganga á röðina og takast á við allar þær helstu. Við Hrefna lofum mætingu.
HÞH
Athugasemdir
Ég fór einmitt á þessa sýningu í fyrra og fannst hún alveg stórkostlega skemmtileg. Maður var í svo miklu návígi við Benedikt að þetta varð töluvert nánari upplifun en ella. Svo var svo gaman að sjá hvað hann skyrpir mikið.
Sjonni (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.