Nei, þetta eru ekki ofsjónir. Það er komin ný færsla.

Jæja, nú eru vonandi flestir búnir að fá tækifæri til að melta síðustu færslu og kominn tími til að bæta við einhverjum fréttum héðan frá Oxford.

Hér í borg er mikið stuð þrátt fyrir fámenni en nú eru margir að hvíla lúin bein fyrir síðustu lestrartörnina. Ég húki hins vegar enn á bókasafninu enda á ég að skila þremur ritgerðum í réttarheimspeki 18. apríl. Á móti kemur að ég þarf þá að hafa áhyggjur af einu prófi færra en flestir aðrir í júnílok.

Hrefna má líka vera montin af sjálfri sér því hún fékk inni í hinum virta háskóla LSE, eða London School of Economics and Political Science, eins og hann heitir fullu nafni. Námið sem hún sótti um heitir Theory and history of International Relations.

Undanfarna viku hefur verið sólbaðsveður og allt í blóma. Svo gerði vetur konungur sér lítið fyrir og lét snjóa á okkur í gær og fyrradag. Við ætluðum ekki að trúa eigin augum þegar við litum út um morguninn og fundum fyrir jólafiðringi. Þessar myndir voru teknar fyrir sólarupprás af skólasystur minni, Helen Dale.

 veturvetur2vetur4

Af öðru er það að nefna að við höfum notið gestrisni íslenskra vina okkar að undanförnu. Fórum í afmæli til Jóhönnu sem stúderar norræn fræði til doktorsgráðu og í matarboð til Margrétar og Varða. Annars vann Margrét það afrek á dögunum að vera í sigurliði Oxford í róðri í keppninni frægu gegn Cambridge. Oxford sigraði í bæði kvenna- og karlaflokki að þessu sinni. Maður hefði ekki trúað því hversu strangt er æft allt árið ef maður hefði ekki fylgst með þessu í gegnum hana Margréti.

Af gestakomum er það að frétta að við búumst við góðu fólki hér á næstunni í stutt stopp. Þeir sem ég held að séu staðfestir eru Haukur og Guðríður, Maggý, Heiðar og Fríða, og Birta. Ástmar mun hins vegar ríða á vaðið og verður hér á afmælinu hennar Hrefnu eftir tæpar þrjár vikur.

 Segjum þetta í bili.

Hafsteinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband