Gersigur íhaldsmanna í Bretlandi

Ég var ekki lítið svekktur yfir því að missa af fundi með John Major, fyrrum forsætisráðherra Breta, um daginn. Þannig er að á hverju sunnudagskvöldi býður skólameistarinn í University College okkur nemendum heim til sín ásamt góðum utanaðkomandi gesti í spjall. Síðasta sunnudag var það John Major. Þar sem stofa skólameistara rúmar ekki ótakmarkaðan fjölda verður í einstaka tilfellum að draga um hverjir komast að. Ég var sem sagt óheppinn í þetta skiptið.

Hins vegar er ég að fara á fund með David Cameron, núverandi leiðtoga íhaldsmanna eftir nokkra daga. Það verður sérlega áhugavert í ljósi gerbreyttrar stöðu í breskum stjórnmálum.

Þegar við Hrefna fluttum til Bretlands gekk Gordon Brown allt í haginn og ekkert benti til þess að eyðimerkurgöngu íhaldsmanna lyki á næstunni. Gengi hans síðan þá verður ekki lýst með öðrum orðum en algeru pólitísku hruni. Í gærkvöldi kom svo í ljós að Verkamannaflokkurinn beið mesta afhroð í sveitarstjórnarkosningum í 40 ár. Flokkurinn fékk meira að segja færri atkvæði en Frjálslyndi flokkurinn.

Og rétt í þessu kom svo náðarhöggið. Ken Livingstone, eða Rauði-Ken, eins og hann er kallaður hér, beið ósigur fyrir Boris Johnson í bardaganum um London.

Ég hef ekki náð að kynna mér pólitík Borisar vel en ljóst er að þar fer mikill karakter. Hann gekk í Oxford og vakti þar mikla athygli í félagslífinu og var m.a. formaður málfundafélagsins (Oxford Union). Síðar stýrði hann gamanþáttum á BBC.

Ég held að mat stjórnmálafræðingsins á heimilinu sé hárrétt. Bretar vilja bragðmikla karaktera í pólitík. Þeir fyrirgefa fólki ýmislegt ef það býður upp á hnittin tilsvör, hugsjónir og pólitíska áræðni. Þeir vilja frekar fólk eins og Tony Blair, Margaret Thatcher og Winston Churchill heldur en Gordon Brown og John Major.

Ég held að Boris Johnson eigi merkilegan feril í vændum.

boris


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband