Fyrir ykkur örfáu sem vitið af þessari bloggsíðu

Við Hrefna höfum sem sagt ákveðið að stofna til bloggsíðu. Ættingjar okkar og vinir hafa um nokkurt skeið vitað að hugur okkar stæði til þess að flytja til útlanda og sækja framhaldsnám. Við ákváðum að láta drauminn rætast nú í haust. Við höfum fundið fyrir því að okkar nánustu eru ekki skeytingarlausir um okkar hag og vilja gjarnan vita hvert við erum að fara og hvað við erum að sýsla. Þessi bloggsíða er fyrst og fremst til þess að halda þessu góða fólki, sem er dreift um landið og heiminn, upplýstu.

Svo hér koma nýjustu fréttir. Við stefnum á að flytja til Oxford um miðjan ágúst. Námið sjálft hefst ekki fyrr en í lok september en ég hef skráð mig á námskeið í lögfræðilegri ensku og mun nota tímann til að slípa mig í mælskulistinni auk þess sem okkur gefst vonandi gott tækifæri til að kynnast borginni og koma okkur fyrir áður en alvaran hefst. Um er að ræða Magister Juris gráðu með áherslu á réttarheimspeki. Hrefna hættir í vinnunni hér heima 13. júlí og fer þá á fullt í að ganga frá okkar málum hérna heima. Sjálf sótti hún nýlega um í skólum í London og mun ferðast á milli borganna til þess að sækja tíma þar ef af verður.

Oxford háskóli samanstendur af 39 görðum, eða Colleges. Sá sem tók við mér heitir University College og er þeirra elstur. Meðfylgjandi mynd er af Univ, eins og hann er kallaður.
HÞH


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áskorun til Geirs H. Haarde

Ég skora hér með á Geir að leysa þessa rugl deilu um það hvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á að heita. Geir á að stíga fram á tröppur ráðherrabústaðarins og tilkynna að ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Og ríkisstjórnin á ekki að heita "Þingvallastjórnin" eða eitthvað álíka litlaust og leiðinlegt. Af hverju ekki að velja nafn sem er í senn töff og spennandi? Næsta stjórn á að heita Thundercat!

Ég sé þetta fyrir mér í fréttunum. "Thundercat, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hefur ákveðið að lækka skatta."
HÞH


Hr. Ibrahim

Ég hef oft lesið bækur þar sem fullyrt er á baksíðu að lesandinn muni ekki geta lagt bókina frá sér fyrr en hann hafi klárað hana. Einhvern veginn hefur mér nú samt alltaf tekist að taka mér pásur frá lestrinum. Nema um daginn. Þá kom Eirik vinur minn í heimsókn og færði mér að gjöf bókina um Hr. Ibrahim og blóm Kóransins eftir Eric-Emmanuel Schmitt. Bókin er stutt, einhvers konar blanda af ljóði og skáldsögu. Ég skora á alla að lesa þessa frábæru bók.
HÞH

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband