Á rölti um Oxford

Oxford 

Oxford kom okkur skemmtilega á óvart. Borgin iðar af lífi og skartar fjörugum verslunargötum, forvitnilegum vínstúkum, tignarlegum kastölum og gróðursælum útivistarsvæðum. Og allt þetta reyndum við Hrefna að taka inn á rúmum tveimur dögum.

Oxford

Til þess að kynnast borginni sem best gengum við hana þvera og endilanga. Það hefði þó óneitanlega verið þægilegt að hafa hjól með í för og verður það væntanlega ein af mínum fyrstu fjárfestingum þegar út verður komið. Þess má geta að við erum ekki fyrst til að uppgötva hentugleika reiðhjólsins í Oxford.

100_1028

Það er eitthvað sérstakt við stemninguna í borginni. Hluta skýringarinnar er örugglega að finna í mjög háu hlutfalli ungs fólks enda eru þar fleiri menntastofnanir heldur en University of Oxford. En það kemur örugglega margt fleira til. Kannski er manni loksins að verða ljóst að England hefur upp á svo miklu meira að bjóða en einungis Lundúnaborg, eins spennandi og hún er. Gaman væri til dæmis að heimsækja Auði Gyðu og fjölskyldu til Brighton við tækifæri. Þar er víst yndislegt að vera.

Kv.

Hafsteinn.

 


Planes, Trains & Automobiles

Hnébuxur mínar liggja aldeilis ekki í brotunum þessa dagana, eins og Eirik vinur minn myndi orða það. Við Hrefna erum nefnilega á sífelldu flakki. Um síðustu helgi vorum við á Akureyri í tilefni af útskrift Rögnu Daggar, frænku Hrefnu, frá Menntaskólanum á Akureyri. Við erum að sjálfsögðu afar stollt af Rögnu sem útskrifaðist með glæsilega fyrstu einkunn. Við nýttum svo tækifærið og keyrðum Eyjafjarðarhringinn í frábæru veðri. Á myndinni má sjá Hrefnu pósa við Grundarkirkju.

 100_0934

Og ekki er allt búið enn. Við munum nefnilega vakna snemma í fyrramálið og leggja af stað til Englands og heimsækja Oxford. Verst að spáð er rigningu þar ytra svo langt sem spökustu menn sjá. "Always stays the same, nothing ever changes. / English summer rain, seems to last for ages", sungu Placebo.

HÞH


Aftur til framtíðar

 Grund

Ég er kominn aftur heim eftir að hafa eytt nokkrum dögum með steggnum bróður mínum og nokkrum öðrum á Langanesi. Jörðin Grund komst upphaflega í eigu fjölskyldunnar þegar afi keypti hana til þess að geta stundað þar veiðar. Sjálfur hef ég komið þangað reglulega undanfarin tuttugu ár án þess að hafa sérstakan áhuga á veiðimennsku. Þessi staður býr yfir einhverju undarlegu aðdráttarafli sem erfitt er að útskýra. Það er eins og tíminn standi í stað þarna í rafmagnsleysinu innan um eyðibýlin.

En ég er sem sagt kominn aftur.

 HÞH

 Myndina tók Haukur Örn Birgisson.


Herra athyglis- og lygasjúkur og frú tilfinninganæm

Á netinu fann ég einfalt persónuleikapróf. Ég var beðinn að rita bókstafinn Q á ennið á mér með vísifingri. Niðurstaðan réðst svo af því hvernig ég sneri stafnum.

Það er skemmst frá því að segja að ég sneri honum að ímynduðum áhorfanda, þ.e. þannig að ef ég hefði raunverulega ritað stafinn á enni mitt, hefði hann snúið rétt gagnvart þeim sem stæði andspænis mér. Þetta er víst til marks um það að ég njóti þess að vera í sviðsljósinu og sé upptekinn af því hvernig annað fólk bregst við mér. Jafnframt þýðir þetta að ég eigi auðvelt með að blekkja fólk. Hefði ég hins vegar snúið stafnum inn á við, ef svo má segja, þ.e. rétt gagnvart sjálfum mér og þeim sem stæðu fyrir aftan mig, hefði það borið allt öðrum persónuleika vitni. Fólk sem þetta gerir ku vera tilfinninganæmt, sannsögult og lítið upptekið af því hvað öðrum finnst um það.

Ég taldi prófið augljóslega gallað þegar af þeirri ástæðu að engum myndi koma það til hugar að rita stafinn á ennið á sér með þeim hætti að stafurinn væri ólæsilegur þeim sem liti á ennið.

Til gamans bað ég hins vegar Hrefnu um að taka prófið. Um niðurstöðuna má lesa í fyrirsögn.

HÞH


Beit fleinn floginn. / Þá var friðr loginn.

Í kvöld bauð Hrefna mér á sýningu Benedikts Erlingssonar, Mr. Skallagrímsson. Við erum bæði miklir aðdáendur Benedikts og stilltum því hvorki kröfum okkar né væntingum í hóf.

Sýningin er frábær og hittir í mark á svo margan hátt. Hún er í senn skemmtileg og átakanleg. Áhorfandinn sveiflast á milli þess að dáðst að og fyrirlíta Egil Skallagrímsson og um leið menningu forfeðra okkar. Fyllast stolti og aðdáun á drengskap, ævintýraþrá, hetjulund og skáldskap. Viðbjóði á brennum, barnamorðum og ránum sömu manna.

Benedikt (og aðrir aðstandendur sýningarinnar) eru greinilega viðbúnir áhorfendum úr öllum áttum. Maður fann að þeir áhorfendur sem sökkt hafa sér í Íslendingasögurnar skemmtu sér konunglega en líka hinir sem lítið þekkja til sagnanna og hafa hingað til jafnvel ekki haft mikinn áhuga á þeim. Og allir munu þeir glugga í Egils sögu um helgina. Eftir að hafa séð túlkun Benedikts á Ormstungu og Egils sögu veltir maður því fyrir sér hvort hann verði ekki hreinlega að ganga á röðina og takast á við allar þær helstu. Við Hrefna lofum mætingu.

HÞH


Útgáfu Múrsins hætt

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Stefán Pálsson í tilefni af því að útgáfu vefrits Múrsins hefur verið hætt. Stefán telur að gullöld hinna pólitísku vefrita sé liðin undir lok og þau hafi nú minna vægi en áður.

Sjálfur tók ég þátt, ásamt nokkrum öðrum, í stofnun frelsi.is á sínum tíma og man vel eftir því þegar róttæk grein á síðunni gat valdið miklu fjaðrafoki og leitt til heitra skoðanaskipta á síðum annarra vefrita og dagblaða. Sennilega er það rétt hjá Stefáni að tímarnir hafi breyst svolítið hvað þetta varðar. Það er þó ekki þar með sagt að minna sé um pólitísk skrif á netinu, öðru nær. Framboðið af slíkum skrifum hefur auðvitað margfaldast með tilkomu allra bloggsíðanna.

Mér varð hugsað til fyrstu daga frelsisins þegar ég las viðtalið við Stefán. Eitt af því skemmtilegasta við síðuna á fyrstu dögum hennar voru án efa hinar pólitísku teiknimyndasögur sem þar birtust um Einar einstakling. Myndasögurnar voru eftir Ívar Pál Jónsson, rithöfund og tónlistarmann. Ég legg til að núverandi ritstjóri frelsi.is leiti á ný til Ívars og bjóði honum fúlgur fjár fyrir að vekja Einar einstakling til lífs á ný. Þá myndi ný gullöld hefjast.

HÞH

p.s. Mér áskotnaðist rammi úr myndaseríu um Einar einstakling frá höfundi og ákvað að skeyta honum við færsluna.Einar


Þak yfir höfuðið á Nautavaði

NautavaðÞað lítur út fyrir að við Hrefna séum búin að tryggja okkur þak yfir höfuðið í Oxford. Samkvæmt meldingu þaðan fyrr í dag stefnir skólinn á að afhenda okkur íbúð fyrsta dag ágústmánaðar. Íbúðin stendur okkur því til boða nokkuð fyrr en við höfðum gert ráð fyrir. Spurning hvort við höldum okkur samt ekki við fyrri plön og förum um miðjan mánuðinn. Hver sem lendingin verður er að minnsta kosti ágætt ef þetta þýðir að íbúðarmál eru leyst. Ég er alltaf að sjá betur og betur sannleikann í aðvörunarorðum Viðars sem fullyrti að pappírsvinnan við skólaumsóknir væri leikur einn við hliðina á þeirri sem tæki við kæmist maður inn.

Viðar, sem lesendur þessarar síðu vita væntanlega að er efnilegasti fræðimaður okkar í miðaldasagnfræði og stúderar til doktorsgráðu við Berkley háskóla, er annars eitthvað ósáttur við að við skulum enn tala um Oxford í stað þess að nota íslenska útgáfu hans af nafni staðarins. Nefnilega Nautavað.


Ofbeldismenning

Það ætti auðvitað ekki að þurfa að setja refsilög til að koma í veg fyrir að fólk ráðist á aðra. Auðvitað ætti siðferðiskenndin ein að duga en ekki óttinn við fangelsisvist.

En því miður búa sumir ekki yfir slíkri réttlætis- og siðferðiskennd og slíka einstaklinga verður að stöðva með einhverjum öðrum hætti. Undanfarna daga hefur ofbeldi í miðbæ Reykjavíkur enn á ný verið til umfjöllunar og velta menn fyrir sér úrræðum til að draga úr því.

Sjálfur er ég almennt fylgjandi fremur vægum refsingum. Fyrir því liggja margvíslegar ástæður sem erfitt er að gera fullnægjandi grein fyrir í bloggfærslu. Hvað sem því líður blasir hins vegar við að refsingar verða að vera nægilega þungar til að búa yfir fælingarmætti. Þær þurfa að valda því að ofbeldismaður, sem yfir höfuð leiðir hugann að afleiðingum gerða sinna, hugsi sig tvisvar um áður en hann brýtur bjórflösku á höfði næsta manns á barnum.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort refsivörslukerfið í heild sinni á Íslandi sé of veikt til þess að búa yfir slíkum fælingarmætti. Hugsa Íslendingar sig tvisvar um áður en þeir reisa hnefann á loft af ótta við viðbrögð refsivörslukerfisins? Ég er ekki viss um að svo sé í mörgum tilfellum.

Allir þekkja einhvern sem hefur verið laminn í miðbæ Reykjavíkur að ástæðulausu. Og mér finnst eins og mörgum finnist það ekkert tiltökumál. Það er eins og mörgum finnist slagsmál eðlilegur fylgifiskur skemmtana eins fáránlegt og það hljómar. Ég hef jafnvel heyrt sögur af fólki sem er ráðlagt, jafnvel af lögreglumönnum, að vera ekkert að kæra líkamsárás því það verði líklegast ekkert úr málinu. Það er eins og skemmtanamenning okkar samþykki það að mönnum sé "gefið á kjaftinn" o.s.frv. En það er auðvitað engin skemmtanamenning, heldur ofbeldismenning.

Það getur verið ótrúlegt áfall fyrir einstakling að verða fyrir líkamsárás, jafnvel þótt afleiðingarnar séu e.t.v. "bara" sprungin vör eða glóðarauga. Svo ekki sé nú talað um hættuna á að slík árás leiði til varanlegra meiðsla, jafnvel til dauða.

Ég held að nauðsynlegur þáttur í því að eyða þessari ofbeldismenningu sé að herða refsingar og fylgja svona málum fastar eftir á öllum stigum réttarkerfisins.

HÞH


"Skarphéðinn heiti eg og hefir þú séð mig jafnan á þingi..."

Þeirri eldgömlu pólitísku brellu, að þykjast ekki kannast við andstæðinga sína, var beitt gegn Skarphéðni Njálssyni á Alþingi fyrir þúsund árum. Þegar þessi frækni kappi mætti á svæðið í fullum skrúða umkringdur genginu sínu spurðu andstæðingarnir, m.a. Skafti Þóroddsson, hver hann væri eiginlega. Með þessu þóttust þeir væntanlega slá tvær flugur í einu höggi. Það var auðvitað mikil niðurlæging fyrir Skarphéðinn, þessa frægu hetju, þegar höfðingjar landsins þekktu hann ekki. Og ekki óttuðust menn hann nú mikið, eða lágu andvaka af áhyggjum af því að mæta honum, ef þeir könnuðust ekki við hann þegar hann mætti til þings.

Undanfarinn áratug var hins vegar þveröfugri aðferð beitt af íslenskum vinstrimönnum í glímunni við helsta andstæðing sinn, Davíð Oddsson. Ekki nóg með að þeir þekktu á honum deili, heldur létu þeir allt snúast um hann og hans persónu. Allar árásir og allar samsæriskenningar beindust gegn honum. Nánast ekkert mátti gerast í íslensku samfélagi án þess að vinstrimenn flæktu persónu Davíðs Oddssonar einhvern veginn í málið. Þessi strategía var hins vegar mjög misráðin, fyrir utan það hvað hún var ósanngjörn gagnvart Davíð, og fyrir því lágu tvær ástæður.

Í fyrsta lagi leiddi þessi aðferð vinstrimanna til þess að þeir stóðu bitlausir eftir þegar Davíð hætti í pólitík, enda snerist allur þeirra málflutningur um hann. Í öðru lagi gerðu þeir Davíð Oddssyni óafvitandi og óviljandi mjög hátt undir höfði með árásum sínum. Því ef málflutningur þeirra var á rökum reistur, og allt samfélagið snerist í kringum persónu Davíðs Oddssonar, hlaut hann að vera einhver merkasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar.

Munurinn á taktík vinstrimanna síðastliðinn áratug og þeirra er sátu á þingi fyrir þúsund árum síðan kristallast í þessu frábæra ádeilumyndbandi úr áramótaskaupi Hallgríms Helgasonar og Skara skrípó:

http://www.youtube.com/watch?v=Mywc_HvihXU

HÞH


"Ég vitna oft í sjálfan mig. Það gerir mál mitt mergjaðra"

George Bernard Shaw á heiðurinn af þessari hófstilltu yfirlýsingu.

Ég ætla að fá að gera slíkt hið sama í þetta skiptið, það er vitna í sjálfan mig. Ekki alls fyrir löngu bað vinur minn Rúnar Ingi, sem ritstýrir netmálgagni Heimdellinga, frelsinu, mig um að skrifa grein um frjálshyggjuna. Ég nýtti tækifærið og skrifaði um efni sem hefur um nokkurt skeið verið mér svolítið hugleikið og mér finnst að frjálshyggjumenn þyrftu að gefa meiri gaum. Efnið varðar það hvers frelsið krefst af okkur ef við ætlum raunverulega að gera baráttu fyrir því einhvers virði. Það getur vel verið að ég haldi eitthvað áfram með þessar pælingar við gott tækifæri.

En mér datt sem sagt í hug að láta þessa grein eftir sjálfan mig fylgja þessari færslu í viðhengi, svona rétt til að gera bloggið mitt mergjaðra.
HÞH


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband