Ísland...best í heimi

Nú um helgina stendur yfir aðalþing Sambands ungra sjálfstæðismanna á Seyðisfirði. Ég er í fyrsta sinn fjarri góðu gamni síðan Ásdís Halla Bragadóttir var kjörin formaður árið 1997. Ef ég þekki mitt fólk rétt þá er mikið stuð núna í firðinum eftir snarpar rökræður í dag og í gær. Á morgun verður svo ný stjórn kjörin. Hennar bíður mikilvægt aðhaldshlutverk í íslenskri pólitík. Þegar stjórnarandstaðan er jafn vinstrisinnuð og veik sem raun ber vitni er hætt við að enginn veiti Sjálfstæðisflokknum aðhald frá hægri aðrir en ungir sjálfstæðismenn.

Eins og þið sjáið á íslensku stöfunum eru tölvumál okkar Hrefnu loksins leyst. Það er ótrúlega mikið búið að drífa á daga okkar síðan ég bloggaði síðast. Í raun svo mikið að það þýðir ekkert að reyna að gera því skil í bloggfærslu. Um síðustu helgi fórum við á Police tónleika í boði Auðar Gyðu og Svenna. Þar fyrir utan höfum við flakkað um nágrannasveitir í boði háskólans og skoðað sögufræga staði.

Áhugi fólks á Íslandi er ótrúlega mikill, ekki síst meðal erlendu stúdentanna. Einn félagi minn hér í Oxford er frá Kúveit. Vinur hans, starfsmaður sendiráðs Kúveit í Argentínu, er hér í heimsókn og ætlaði ekki að trúa því þegar hann rakst á okkur Hrefnu. Hann fór í hálfgerðan trans og þuldi upp öll lög Bjarkar fyrr og síðar (já Sykurmolarnir eru meðtaldir) og sagðist hafa verið með Ísland á heilanum síðustu árin. Annar kollegi minn úr lögfræðingastétt, kínversk stúlka, sagðist hafa lært það í landafræði þegar hún var ung að Reykjavík væri fegursta borg heims. Ég hlyti að vera mjög þakklátur fyrir að hafa fæðst þar. Og þegar maður heyrir eitthvað svona, þá fer maður (að minnsta kosti ég) í hálfgerðan þjóðrembugír og staðfestir allar hugmyndir þessa fólks um land okkar og þjóð.

Annars lauk enskunámskeiðinu mínu í gær og nú styttist í laganámið sjálft. Ég hef reyndar einhverja tíu daga núna til að undirbúa mig undir átökin. Það vill reyndar svo heppilega til að ég trúi því að besti undirbúningurinn felist í góðri hvíld. Á morgun er því ferðinni heitið í þriggja daga afslöppunarferð til London. Þetta kann að hljóma svolítið skringilega enda er borgin að springa af túristum og full af fjöri. En við munum halda okkur fjarri Oxfordstræti og nota frekar tækifærið og reyna að hitta á Höddu og Hreiðar Nóa og vonandi náum við líka í skottið á Helgu og Ingva Hrafni.

Læt að lokum nokkrar myndir af handahófi fylgja með.

Kv.

HH

100_1292

100_1296

100_1315

100_1316

100_1328


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bara gaman að fá ykkur í heimsókn! Hreiðar Nói er svo rétt að komast niður á jörðina, fannst reyndar skrítið að þið vilduð ekki gista hjá honum enda virðist það vera mikið sport að hafa næsturgesti þegar maður er 4 ára! Vonum að það rjátlist af honum fyrir unglingsárin...

Sjáumst sem fyrst aftur!

Hadda

Hadda (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 09:46

2 identicon

Hellú hellú. Til hamingju með að endurheimta tölvuna, þvílíkur endemis léttir sem það hlýtur að vera að fá hana til baka.

Jafnmikinn viðbjóð og það vekur hjá mér að lesa um hvað þú saknar þess að vera á sus þingi þá vekur það hjá mér mikinn fögnuð að lesa um góðar stundir þínar og Hrefnu minnar í Oxford. Ég kannast þokkalega við áhuga fólks á Íslandi og Íslendingum og það hefur einmitt komið mér á óvart hvursu mikil þjóðremba ég er og hvursu stolt ég er af landi og þjóð. Hef jafnvel setið langar stundir við tölvuna og dáðst að myndböndum með Sigurrós, með vott af heimþrá! Ég staðfesti hugmyndir fólks um land og þjóð með drykkju minni og jákvæðni og dreg upp dramatískar myndir af næturlífi Reykjavíkur, jöklum, hverum og fossum. Gaman að því.

Og varðandi London þá er mín reynsla einmitt að best sé að halda sig eins fjarri Oxford stræti og mögulegt er, tsjilla bara með hinum kúlistunum á Brick Lane ;)

Hvenær er svo planið að koma yfir til Amsterdam?

Gunnhildur (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband