13.11.2007 | 13:58
Við erum ekki búin að gleyma ykkur
Eftir því sem lengri tími líður frá því að maður bloggaði, því meiri kröfur gerir maður til færslunnar sem maður ætlar að skrifa. Maður ímyndar sér einhvern veginn að fólk bíði í ofvæni eftir næstu færslu og vill ekki valda því vonbrigðum með því að skrifa eitthvað hversdagslegt.
Teljarinn á síðunni staðfestir hins vegar að í stað þess að bíða í ofvæni hafa nú flestir vinir og ættingjar afskrifað þessa síðu. Hverju sem því líður koma nú smá fréttir af okkur hjónum.
Nám mitt gengur vel og Hrefna er sátt í vinnunni. Álagið á báðum stöðum er samt mjög mikið, Hrefna vinnur langar vaktir og ég reyni að halda í við fullkomlega óraunhæfar kennsluáætlanir. Í kvöld verður hins vegar vinna Hrefnu sameinuð skemmtun minni því ég ætla að fara með henni á vínsmökkun á vegum fyrirtækisins. Það þýðir ekki að læra eintóma lögfræði hér í Oxford, maður verður líka að mennta sig í lífsins listisemdum.
Um daginn brugðum við okkur til London og hittum þar Hauk Þór, Ingva Hrafn og Helgu, Steve (Svein), Bjögga, Stálið, Hákarlinn og Gísla. Kristín vinkona okkar kom svo í heimsókn um daginn og eyddi með okkur þremur dögum. Það var nú aldeilis skemmtilegt að hitta þetta góða fólk og þau minntu okkur á hve mikið við erum farin að sakna vina okkar og fjölskyldu, þrátt fyrir að hafa einungis verið hér í þrjá mánuði. Fólk getur því átt von á stöðugum heimsóknum okkar hjóna um jólin en við eigum pantað flug til Íslands 16. desember og svo aftur út 6. janúar á nýju ári.
Jæja greyin mín. Nú hef ég tekið fyrsta skrefið og sagt fréttir af sjálfum mér. Dröslist nú til að skrifa okkur Hrefnu línu um það sem þið eruð sjálf að bauka.
HÞH
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.