Færsluflokkur: Bloggar
11.1.2008 | 18:40
Komin til Oxford á ný
Þar sem það er meira en mánuður síðan við blogguðum síðast ætla ég að stikla á helstu atburðum desember mánaðar. Eins og sagði í fyrri bloggfærslu þá fórum við hjónakornin til Bath í tvo daga í byrjun desember. Borgin heillaði okkur algjörlega uppúr skónum. Hún er alveg afskaplega falleg og mikið af skemmtilegum hlutum hægt að gera. Því miður tókum við ekki með okkur sundfötin og skelltum okkur í spa en það verður gert í næstu ferð enda virðist borgin eiga nóg af spa stöðum. Við kíktum á skemmtilegan jólamarkað og fórum út að borða á frábæran tapas stað auk þess að skoða rómversku böðin. Síðan var aragrúi af skemmtilegum litlum búðum sem gaman var að kíkja í. Við skellum inn nokkrum myndum frá Bath á eftir.
16. desember var síðan haldið af stað til Íslands þar sem við dvöldum í þrjár vikur. Við vorum svo heppin að fá heilt raðhús útaf fyrir okkur og létum ættingja okkar og vini dekra við okkur alla ferðina. Ég held að við höfum eldað tvisvar í Skeiðarvoginum annars mættum við bara til fólks í mat. Svo sváfum við á milli heimsókna þannig að þetta var æðislegur tími. Ég ætla því að nota tækifærið og þakka öllum æðislega fyrir okkur!!!... þið vitið hver þið eruð ;)
Sunnudaginn síðasta snerum við aftur til Oxford og ég byrjaði að vinna daginn eftir og Hafsteinn að lesa. Það er svolítið ruglandi að vera komin aftur. Ég veit ekkert hvaða viku dagur er eða mánuður. Það kannski stafar af því að hér er alveg bjart frá sjö á morgnanna og um 10 stiga hiti. Í gær var ég að labba niðrí bæ í gegnum Jericho hverfið (uppáhaldshverfið mitt) og þar blöstu við mér blómstrandi páskaliljur í búðargluggum og grænmetisstallar fyrir framan matvörubúðirnar. Ekki kannski beint það sem maður á að venjast í byrjun janúar.
Hrefna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2007 | 00:06
Bath
Við hjónakornin erum á leiðinni til borgarinnar Bath á morgun. Þar ætlum við að gista eina nótt og koma heim á föstudagskvöldið. Við höfðum upphaflega ætlað að fara til London í jólagjafaleiðangur en nenntum hreinlega ekki að fara í mannmergðina í búðunum og ákváðum frekar að skella okkur til Bath. Þar ætlum við að fara á jólamarkað og skoða rómversku böðin. Við skellum svo vonandi einhverjum myndum frá Bath á bloggið þegar við komum heim.
Annars vorum við að koma heim af myndinni The Golden Compass. Það er ævintýramynd sem var verið að frumsýna í dag. Hún er einmitt tekin að stórum hluta í Oxford og í byggingum Oxfordháskóla.
Hrefna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2007 | 00:55
Fréttayfirlit úr Nautavaði
Síðasta vika er búin að vera ansi viðburðarík. Síðasta sunnudag áttum við Hafsteinn brúðkaupsafmæli og fórum á æðislegan líbanskan stað í tilefni dagsins. Ég hafði týnt símanum mínum í síðustu viku (nýtt númer 00447920035703) og þegar ég vaknaði á sunnudaginn síðasta beið mín nýr og svakalega flottur Nokia 6300 sími. Eiginmaðurinn fékk mörg prik í bókina fyrir að vera svona sætur.
Þar sem fyrsta brúðkaupsafmælið er pappírsbrúðkaupsafmæli þá gaf ég Hafsteini bókina "White Spider" eftir Heinrich Harrer um ferð hans á Eigertind. Eins og sagði að ofan þá fórum við á líbanskan stað um kvöldið. Við erum búin að finna tvo fína líbanska staði í Oxford sem ég er hrikalega ánægð með því ég elska líbanskan mat. Ég hef hins vegar ekkert prófað að elda neitt líbanskt ennþá en mig grunar að það líði ekki á löngu þangað til að ég fari að spreyta mig á honum.
Á miðvikudaginn síðasta var okkur ásamt öðrum Íslendingum boðið í móttöku í Linecre college í Oxford af tilefni komu Geirs Haarde til Oxford. Geir hélt fyrirlestur í Oxford Union um kvöldið um stöðu íslenskra efnahagsmála og mættum við þar líka. Fyrirlesturinn var mjög fróðlegur og var honum vel tekið.
Hafsteinn hafði fyrr um daginn gengið í hið merkilega málfundafélag Oxford Union. Félagið er staðsett í risa stóru húsi í miðborg Oxford með geðveiku bókasafni og fínum bar. Hvet ykkur til að googla Oxford Union og kíkja á myndirnar innan úr húsinu. Ég kemst á fundina sem gestur sem ég er gríðarlega ánægð með .. síðan kostar bjórinn 1 pund... ekki er það verra.
Núna í dag borðuðum við enskan jólamat með Íslendingunum. Við fórum á mjög kósý pöbb í útjarði Oxford og borðuðum kalkún, mince pies og búðing. Íslenska jólastemningin var svo fullkomnuð þegar Varði og Margrét drógu fram malt og appelsín sem þau höfðu fengið sérstakt leyfi frá eiganda staðarins til að bjóða upp á.
Hrefna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 23:11
Allt á suðupunkti í málfundafélagi Oxford háskóla
Flestar sjónarpstöðvarnar hérna hafa verið með beina útsendingu frá Oxford í tilefni af umdeildum fundi málfundafélagsins Oxford Union. Í kvöld áttu tveir umdeildir gestir að taka þátt í rökræðum. Annar þeirra er David Irving, sagnfræðingur, sem frægur er fyrir að halda því fram að helför gyðinga hafi ekki átt sér stað í seinni heimstyrjöld, og sat reyndar um tíma í fangelsi fyrir yfirlýsingar sínar þar að lútandi. Gríðarlegur fjöldi fólks kom sér fyrir til þess að mótmæla komu Irvings og að lokum stormuðu mótmælendurnir byggingu Oxford Union. Rökræðurnar hafa því enn ekki farið fram en Irving er enn staddur í byggingunni.
Þetta gerist á sama tíma og viðfangsefni mitt í samanburðarmannréttindum er tjáningarfrelsið. Ég get því ímyndað mér hvert umræðuefnið verður í tímanum á föstudaginn.
Þeir sem mótmæla komu David Irvings benda á að það eigi ekki að bjóða hverjum sem er að tala á fundum Oxford Union. Með því að bjóða Irving sé ekki bara verið að gefa honum tækifæri til að útbreiða boðskap sinn heldur um leið verið að veita honum ákveðna viðurkenningu með því að tengja hann við Oxford. Aðeins fáum einstaklingum sé boðið að tala á málfundum félagsins og að vanda eigi valið.
Formaður félagins vísar hins vegar til klassískra sjónarmiða um gildi málfrelsisins. Hann segir að með því að banna mönnum eins og Irving að tala sé með vissum hætti verið að gera þá að píslarvottum. Rétta leiðin sé að rökræða við þá og afhjúpa kenningar þeirra og hatursboðskap.
Ég er út af fyrir sig sammála sjónarmiðum formannsins. En þótt það eigi ekki að banna mönnum eins og David Irving að halda ræður og gefa út bækur, þýðir það ekki að Oxford Union þurfi að búa til vettvang handa þeim.
En til vitnis um breiddina í ræðumönnum Oxford Union, þá má nefna meðal gesta undanfarin misseri hafa verið Michael Jackson, Morgan Freeman... og já, á miðvikudaginn kemur Geir Haarde.
Já, forsætisráðherrann okkar er á leiðinni og við Íslendingarnir í skólanum erum boðnir í móttöku fyrir kappann. Það verður vonandi léttari stemmning yfir liðinu hér í Oxford þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.11.2007 | 22:12
Daglegt líf
Við hjónakornin erum búin að vera alltöf löt að blogga undanfarin mánuðinn en það skýrist kannski helst af því að manni finnst kannski daglega rútínan vera óspennandi fréttir. Hins vegar er það nú kannski sem fólki finnst skemmtilegast að lesa um hvernig daglega lífið er hérna í Oxford. Ég er núna búin að vinna í rúman mánuð í Oddbins sem vínráðgjafi. Mjög fínn titill en kunnáttan er ennþá frekar gloppótt. Sem er kannski ekkert skrítið þar sem víntilbrigðin eru endalaus og mikil vísindi að baki því að búa til gott vín. Ég er búin að vera í mikilli þjálfun hjá samstarfsfólki mínu, lesa heil ósköp og búin að fara í tvær vínsmakkanir. Nú er jólavertíðin að byrja og aðalsala ársins framundan og því er nauðsynlegt að vera með helstu atriðin á tæru. Í síðustu viku fékk ég einmitt fræðslu um skosk viskí og þau ótal tilbrigði sem þar eru að finna, svo sem að viskí sem liggja í sherrrý tunnum hafa sætt bragð. Sum eru búin til við sjávarsíðuna og í þeim má finna þangbragð og önnur hafa reykjarbragð. Sem sagt mikið að læra. Ég er mjög heppin með samstarfsfólk og allir eru mjög elskulegir í vinnunni. Það er heldur ekki erfitt að afgreiða Bretana enda eru þeir kurteisir með afbrigðum og þolinmóðir við útlending með erfiðan hreim.
Eins og Hafsteinn var búin að blogga erum við búin að fá tvær heimsóknir í nóvember. Fyrst kom Kristín vinkona í nokkra daga og svo um síðustu helgi kom mamma, amma og Olla frænka og kíktu á okkur. Það var alveg svakalega gaman að fá þær allar í heimsókn og sýna þeim umhverfið. Ég vona bara að fleiri sjái sér fært að koma í heimsókn og kíkja á okkur. Tíminn er hins vegar farinn að líða ansi hratt. Önnin hans Hafsteins er búin 1. desember og er hann þá komin í "jólafrí". Sem þýðir að hann verður að lesa allan daginn en þarf ekki að mæta í tíma. Við eigum flug heim til Íslands 16. desember og verð ég að vinna fram að þeim degi. Við stefnum samt á að komast kannski einn dag til London í desember og versla aðeins og njóta jólastemmingarinnar í höfuðborginni.
Hrefna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2007 | 19:43
Kirkjuathöfn með Magnusson fjölskyldunni
Oxfordháskóli minntist í dag Magnúsar Magnússonar með kirkjuathöfn í Jesus College, þar sem hann stundaði nám á sínum tíma. Magnusson fjölskyldan hafði verið svo hugulsöm að óska sérstaklega eftir því að íslenskir nemendur við skólann yrðu boðnir. Það voru því þrír stoltir Íslendingar sem hlustuðu á einsöngvara skólakórsins syngja "Víst ertu, Jesú, kóngur klár" með glæsibrag. Margrét Ögmundsdóttir hafði aðstoðað hann með framburðinn og var hann skólanum til mikils sóma.
Eftir athöfnina vorum við boðin til eins konar erfidrykkju þar sem við spjölluðum m.a. við dóttur Magnúsar, Sally Magnusson rithöfund. Ég reyndi auðvitað að slá mér upp á því að hafa á sínum tíma lesið bókina hennar, "Drauminn um Ísland", sem fjallar um löngun hennar til þess að kynnast og viðhalda Íslendingnum í sér, ef svo má segja. Sannarlega heillandi fjölskylda.
Og talandi um heillandi fjölskyldur. Amma Hrefna, Olla og Maggý komu til okkar í gær og hafa nýtt tímann vel. Sjálfur hef ég því miður alltof lítið getað sinnt þeim vegna námsins en vonast til að bætt verði úr því nú um helgina.
Á mánudaginn hefst svo næst síðasta vikan fyrir "jólafrí". Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða. Hversu neyðarlegt verður það fyrir ykkur sem hafið ekki sent okkur Hrefnu tölvupósta, þrátt fyrir áskoranir í síðustu færslu, þegar við hittum ykkur augliti til auglitis heima á Íslandi eftir mánuð? Hvaða afsakanir verða notaðar þá? Vandi er um slíkt að spá, eins og segir í ljóðinu sívinsæla.
Hafsteinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2007 | 13:58
Við erum ekki búin að gleyma ykkur
Eftir því sem lengri tími líður frá því að maður bloggaði, því meiri kröfur gerir maður til færslunnar sem maður ætlar að skrifa. Maður ímyndar sér einhvern veginn að fólk bíði í ofvæni eftir næstu færslu og vill ekki valda því vonbrigðum með því að skrifa eitthvað hversdagslegt.
Teljarinn á síðunni staðfestir hins vegar að í stað þess að bíða í ofvæni hafa nú flestir vinir og ættingjar afskrifað þessa síðu. Hverju sem því líður koma nú smá fréttir af okkur hjónum.
Nám mitt gengur vel og Hrefna er sátt í vinnunni. Álagið á báðum stöðum er samt mjög mikið, Hrefna vinnur langar vaktir og ég reyni að halda í við fullkomlega óraunhæfar kennsluáætlanir. Í kvöld verður hins vegar vinna Hrefnu sameinuð skemmtun minni því ég ætla að fara með henni á vínsmökkun á vegum fyrirtækisins. Það þýðir ekki að læra eintóma lögfræði hér í Oxford, maður verður líka að mennta sig í lífsins listisemdum.
Um daginn brugðum við okkur til London og hittum þar Hauk Þór, Ingva Hrafn og Helgu, Steve (Svein), Bjögga, Stálið, Hákarlinn og Gísla. Kristín vinkona okkar kom svo í heimsókn um daginn og eyddi með okkur þremur dögum. Það var nú aldeilis skemmtilegt að hitta þetta góða fólk og þau minntu okkur á hve mikið við erum farin að sakna vina okkar og fjölskyldu, þrátt fyrir að hafa einungis verið hér í þrjá mánuði. Fólk getur því átt von á stöðugum heimsóknum okkar hjóna um jólin en við eigum pantað flug til Íslands 16. desember og svo aftur út 6. janúar á nýju ári.
Jæja greyin mín. Nú hef ég tekið fyrsta skrefið og sagt fréttir af sjálfum mér. Dröslist nú til að skrifa okkur Hrefnu línu um það sem þið eruð sjálf að bauka.
HÞH
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2007 | 23:23
Meistari
Það er mögnuð lífsreynsla að fá að sitja og rökræða dag hvern við fræðimenn sem eru fremstir á sínu sviði. Menn og konur sem skrifuðu jafnvel fræðirit sem maður stritaði við að læra í náminu heima á Íslandi. Í dag sat ég tíma í stjórnmála- og réttarheimspeki hjá sönnum meistara, Tony Honoré.
Honoré er Englendingur, fæddur árið 1921, sem gerir hann 86 ára að aldri. Hann ólst upp í Suður Afríku en svaraði kalli heimalandsins í síðari heimstyrjöld og slasaðist alvarlega í orrustunni við El Alamein þar sem hann barðist gegn hersveitum Rommels. Síðar átti hann eftir að starfa náið með einhverjum frægasta réttarheimspekingi síðari tíma H. L. A. Hart.
Honoré er einstaklega geðþekkur. Hann býr yfir leiftrandi kímnigáfu og er eldsnöggur að svara fyrir sig ef nemendur gæta þess bara að tala nógu hátt.
Og þessi maður hefur ákveðið að eyða hluta ævikvöldsins í að spjalla við mig um réttarheimspeki. Ótrúlegt.
Hafsteinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2007 | 23:15
Thames áin
Ég mátti líka til með að setja inn þessar myndir sem ég tók fyrir tveimur vikum. Þær eru teknar við kanalinn sem er í um 15 mínútna göngufæri frá heimili okkar.
Hrefna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2007 | 22:57
Heimsókn til Oxford og vinna.
ÚFF... Það er orðið allt of langt síðan að við blogguðum síðast. Það er nú ýmislegt búið að gerast á síðustu dögum. Rannveig og Haukur komu og heimsóttu okkur í síðustu viku og svo er ég komin með vinnu. Ég byrjaði að vinna í Oddbins verslun í hverfinu okkar í dag og gekk bara ágætlega. Það tekur náttúrlega alltaf nokkra daga að koma sér í gang en mér fannst þetta bara ganga nokkuð vel. Oddbins er semsagt vínbúðakeðja í Bretlandi og selur aðallega léttvín og bjór en þar er einnig hægt að fá sterkt vín.
Rannveig og Haukur komu síðan til okkar í síðustu viku og það var alveg ótrúlega gaman að fá þau í heimsókn. Þau komu með fullt fangið af íslensku góðgæti og erum við búin að japla á íslensku sælgæti og flatkökum síðustu daga. Í heimsókninni var kíkt í nokkrar verslanir og miðborg Oxford skoðuð, farið var í outlet þorpið í Bicester og kíkt á pöbbinn meðal annars.
Á laugardaginn síðasta var Hafsteinn síðan "tekin formlega inní háskólasamfélagið" í athöfn í Sheldonian leikhúsinu. Þar eru allir nýnemar kallaðir inná sal í formlega Oxford klæðnaðinum og boðnir velkomnir í fræðasamfélagið. Það var svaka gaman að horfa á nemendurna ganga í leikhúsið í fylgd prófessoranna og svo eftir athöfnina mátti sjá fólk í skikkjunum sínum um allan bæ. Hér eru nokkrar myndir af laugardeginum.
Hrefna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)