Námið í Oxford

Nám við Oxfordháskóla ku vera afar frábrugðið námi í flestum öðrum háskólum. Væntanlega er skýringa á þessu að leita víða, svo sem í feiknalega langri sögu skólans sem skapað hefur hinar sérstæðu hefðir í aldanna rás svo og í ótrúlegum auðæfum skólans. Með auðæfum á ég meðal annars við mannauð, byggingar, bókasöfn og auðvitað beinharða peninga.

Allavega kemur námið mér, á þessum fyrstu dögum, öðruvísi fyrir sjónir en nokkuð annað nám sem ég hef kynnst, allt frá Bæjarbóli til Háskóla Íslands. Það hefur t.d. verið mjög merkilegt að verða vitni að og njótandi allrar þeirrar vinnu sem lögð er í að undirbúa fólk fyrir námið, kynna það fyrir starfsaðferðum, starfsfólki og samnemendum.

Það fyrsta sem maður rekur sig á í Oxford er skipting háskólans í hina 39 garða eða College. Þannig tilheyra allir nemendur háskólans einhverjum garðanna (ég er í University College) sem hver hefur sitt starfsfólk, aðstöðu fyrir nemendur, hefðir, reglur o.s.frv. Ég held að ég verði að geyma nánari lýsingu á þessu samspili háskólans og garðanna til betri tíma enda er ég í raun enn að læra á þetta sérstaka kerfi. Ég læt nægja að nefna það að ég tel mig afar heppinn að vera í University College.

Ég mun stunda nám í fjórum fögum, þ.e. réttarheimspeki, kenningum í stjórnskipunarrétti, lögum í stríði og evrópskum mannréttindareglum. Þar sem tvö fyrstnefndu námskeiðin eru bæði á sviði réttarheimspeki (kenningar í stjórnskipunarrétti eru í raun undirgrein réttarheimspekinnar) má segja að megináherslan í námi mínu liggi þar.

Námið byggir að engu leyti á fyrirlestrum. Ég mun með öðrum orðum ekki sækja neina fyrirlestra í vetur. Þess í stað byggist námið annars vegar á umræðutímum (seminars) þar sem nokkrir nemendur (u.þ.b. 10) hittast með kennara og rökræða sína á milli um námsefnið. Hins vegar eru svo einkatímar með lærimeistara (tutorials) þar sem nemandinn hittir kennarann í einrúmi eða með einum öðrum nemanda og þeir skiptast á hugmyndum um fræðin. Í báðum tilfellum er ætlast til þess að nemandinn mæti afar vel undirbúinn og yfirleitt með stutta ritgerð í farteskinu.

Það er fullkomlega ómögulegt að lesa allt efnið sem sett er fyrir á leslistunum og í raun alls ekki ætlast til þess. Þess í stað felst hluti námsins í því að beita eigin dómgreind og ákveða hvernig maður ráðstafar takmörkuðum tíma sínum.

Allt er þetta í raun nýtt fyrir mér og mjög ólíkt þeim kennsluaðferðum sem ég hef átt að venjast, þótt vissulega hafi einstaka kúrsar í lagadeild Háskóla Íslands gefið mér sýnishorn af þessum kennsluaðferðum. Með þessu er ég ekki að gagnrýna Háskóla Íslands, síður en svo. Einungis að leggja áherslu á hversu óskaplegur munur er á aðferðunum þar og í Oxford. Þetta gerir námið mitt hér vissulega svolítið ógnvekjandi en um leið auðvitað ótrúlega spennandi.

Í fyrramálið held ég svo á Bodlean bókasafnið, sem er eitt elsta bókasafn Evrópu, stofnað 1602. Þangað hefur verið sendur hver einasti titill sem gefinn hefur verið út á Bretlandseyjum síðustu 400 ár. Fyrir utan allt annað sem þangað hefur ratað í hillur. Ég hlýt að geta fundið eitthvað þar til að undirbúa mig fyrir næstu kennslustund.

Hafsteinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta hljómar heldur betur eins og serious stuff hjá þér. En rosa spennandi. Gangi þér vel.

Gunnhildur (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 21:57

2 identicon

Erum við að tala um ALLT sem gefið hefur verið út í UK síðustu 4 aldir?! Haha, ætlarðu ekki að kíkja á 'Superflirt', Heat magazine og líka 'Bridget Jones''?!?!

Já já þetta er alvöru aldeilis. En einkar spennandi (og svo spillir ekki fyrir að geta slakað á heilanum á milli lestrartarna yfir morgun- og síðdegissjónvarpinu í Bretlandinu góða. Ekkert annað en stórkostlegt!).

En að öllu gamni slepptu það gleður það mig óendanlega mikið (já og ég er líka pínu 'smug') að þið séuð geðveikt að fíla ykkur í UK. Gangi ykkur áfram vel ástirnar mínar.

Birta idh xxx

Birtieburt (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 23:01

3 Smámynd: Hrefna og Hafsteinn

Já Birta. Við erum að tala um ALLT. Ég fletti einmitt upp Superflirt frá árinu 1720, alger snilldar árgangur :)

Og Gunnhildur. Til hamingju með frábæran árangur í þínu námi í Amsterdam. Þú ert ekki amalegur fulltrúi lands og þjóðar.

 Verðum í bandi,

Hafsteinn.

Hrefna og Hafsteinn, 4.10.2007 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband